Ofanflóð 2025
Málþing um snjóflóð og samfélög
5. - 6. maí 2025
Staðsetning
Edinborgarhúsið á Ísafirði

Málþing um snjóflóð og samfélög
Málþing um snjóflóð og samfélög verður haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 5.-6. maí 2025.
Snjóflóð og skriðuföll hafa valdið mörgum slysum, stórfelldu efnahagslegu tjóni og margs konar röskun á starfsemi og mannlífi hér á landi allt frá landnámi. Segja má að íslenskt samfélag hafi um langan aldur tekist á við slys af völdum snjóflóða og skriðna með því að taka á sig höggið, lagfæra skemmdir en harka af sér manntjón, og halda svo áfram með tilveruna.
Frá upphafi 20. aldar hafa 226 látist í snjóflóðum og skriðuföllum, þar af 173 í snjóflóðum. Mannskaðasnjóflóðin í Neskaupstað í desember 1974 og svo í Súðavík í janúar 1995 og á Flateyri í október sama ár ollu straumhvörfum í afstöðu Íslendinga til snjóflóðahættu og síðan hefur verið unnið ötullega að uppbyggingu snjóflóðavarna og bættum viðbúnaði við snjóflóðahættu.
Af því tilefni að í ár eru 30 ár liðin frá snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri verður haldið málþing á Ísafirði dagana 5. og 6. maí nk. þar sem sjónum verður m.a. beint að áhrifum snjóflóða og snjóflóðavarna á samfélög á hættusvæðum.
Opnað hefur verið fyrir skráningu. Í skráningu er tekið á móti bókunum á málþingið, í gistingu, skoðunarferð og kvöldverð. Áhugasamir eru hvattir til þess að bóka strax flug.
Hótel bókun fer í gegnum skráningarformið.
Hótel fyrir ráðstefnugesti
Hótel Ísafjörður Torg
Hótel Torg er staðsett miðsvæðis á Ísafirði, á Silfurtorgi og býður upp á veitingastað og bar og víðáttumikið útsýni yfir fjörðinn og nærliggjandi fjöll.
Nútímaleg, björt og fallega innréttuð herbergi með útsýni yfir Pollinn eða út yfir Ísafjarðardjúp og Snæfjallaströnd.
Verð:
Einstaklingsherbergi kr. 27.500
Tveggja manna herb. kr. 32.200
Morgunverður innifalinn
Staðsetning: Silfurtorg 2
Hótel Ísafjörður Horn
Hótel Horn er nýjasta hótel Ísafjarðar. Þetta nútímalega hótel býður upp á ókeypis bílastæði, björt fallega innréttuð herbergi með flatskjá sjónvarpi og ókeypis WiFi. Herbergisinnréttingarnar eru innblásnar af náttúrunni í kring og er hótelið að sjálfsögðu reyklaust.
Verð:
Einstaklingsherbergi kr. 26.400
Tveggja manna herb. kr. 32.200
Fjölskylduherbergi kr. 52.000
Morgunverður innifalinn
Staðsetning: Austurvegur 2
Gamla gistihúsið
Gamla gistihúsið er gistiheimili á tveimur hæðum með gistirými fyrir 19 manns í sjö tveggja manna herbergjum og tveimur þriggja manna staðsett í hjarta Ísafjarðarbæjar.
Sameiginlegt bað og snyrtiaðstaða.
Frí þráðlaus nettenging er í öllu húsinu ásamt sameiginlegri sjónvarpsstofu á efri hæðinni.
Gamla gistihúsið er reyklaust.
Herbergin eru rúmgóð og björt og öll með vaski.
Verð:
Einstaklingsherbergi kr. 21.400
Tveggja manna herb. kr. 24.900
Morgunverður innifalinn
ATH. Innritun og morgunmatur er á Hótel Torgi.
Staðsetning: Mánagata 5
Fyrirlesarar
Kristín Martha Hákonardóttir
Kristín er ofanflóðasérfræðingur og verkfræðingur í Umhverfis, orku- og loftslagsráðuneytinu. Hún er fulltrúi ofanflóðanefndar og fer með daglega yfirstjórn mála sem tengjast ofanflóðasjóði. Kristín Martha hefur starfað við hönnun ofanflóðavarna í 20 ár hjá Verkís verkfræðistofu og tekið mis virkan þátt í alþjóðlegum rannsóknum á snjóflóðum og sérstaklega virkni varnargarða gegn ofanflóðum, auk þátttöku í ritun hönnunarreglna fyrir varnargarða og keilur á úthlaupssvæðum.
Hjalti Jóhannesson
Hjalti er landfræðingur og starfar sem sérfræðingur á Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Hann hefur einkum starfað við rannsóknir á byggðaþróun og aðrar samfélagsfræðirannsóknir síðan árið 2001, bæði tekið þátt í og stjórnað innlendum rannsóknum og sem þátttakandi í fjölþjóðlegum rannsóknum. Hann hefur meðal annars unnið að rannsóknum á samfélagslegum áhrifum innviðauppbyggingar á borð við virkjanir, vegi, raflínur og iðnað, stundum sem hluta af umhverfismati framkvæmda. Á undanförnum árum hefur Hjalti tekið þátt í störfum faghóps 3 í rammaáætlun sem leggur mat á áhrif virkjunar eða friðunar orkusvæða á nærsamfélög.
Halla Ólafsdóttir
Halla starfaði sem fréttakona á Ísafirði fyrir fréttastofu RÚV á árunum 2015-2019. Síðan þá hefur hún verið sjálfstætt starfandi dagskrárgerðarkona og meðal annars sinnt fjölmörgum verkefnum fyrir dagskrá Rásar 1 og sjónvarps. Sem fréttakona fjallaði Halla um snjóflóðahættu og snjóflóð á Vestfjörðum 2015-2019 og í störfum sínum við dagskrárgerð hefur hún rifjað upp og fjallað áfram um snjóflóð fyrri ára.
Geir Sigurðsson
Geir er verkefnastjóri vetrarþjónustu hjá Vegagerðinni. Hann hefur unnið að málefnum vetrarþjónustunnar lengi, fyrst sem yfirmaður þjónustustöðvar Vegagerðarinnar á Ísafirði frá árinu 2000 til 2013 og síðan verkefnastjóri Vestursvæðis til ársins 2020. Frá 2020 hefur Geir unnið á þjónustusviði Vegagerðarinnar við vetrarþjónustu og þá á landsvísu. Geir er og hefur verið búsettur á Ísafirði allan þennan tíma. Sem yfirmaður þjónustustöðvarinnar vann hann mikið að snjóflóðamálum, þá sérstaklega á þeim tveimur vegaköflum á Íslandi sem mest snjóflóðahætta er á, Djúpvegi um Óshlíð (til 2010) og svo Súðavíkurhlíð. Um 2012 -2014 vann hann að því að koma á sms aðvörunarkerfi vegna snjóflóðahættu til vegfarenda Súðavíkurhlíðar og uppúr því fékk Vegagerðin Veðurstofuna til að gera snjóflóðaspá fyrir þann vegakafla. Síðan þá hafa svo fimm aðrir vegakaflar á landinu með snjóflóðahættu bæst við með snjóflóðaspá og uppplýsingaþjónustu með sms.
Halldór Halldórsson
Halldór var bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í 12 ár, frá 1998 til 2010 og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í 12 ár einnig (2006-2018). Þar áður framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann sat í bæjarstjórn Grindavíkur, svo bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar (og líka bæjarstjóri) og í borgarstjórn Reykjavíkurborgar. Samtals 24 ár í sveitarstjórnarmálum. Ennfremur átti hann sæti í Ofanflóðanefnd í 4 ár. Halldór starfar í dag sem forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. á Bíldudal sem er einnnig að undirbúa byggingu versmiðju í Súðavík.
Magni Hreinn Jónsson
Magni er fagstjóri ofanflóðahættumats á Veðurstofu Íslands. Hann hefur starfað við rannsóknir á snjóflóðum, ofanflóðavöktun og ofanflóðahættumat síðan 2010. Hann heldur meðal annars utan um og sinnir umsögnum og ráðgjöf vegna skipulagsmála og ofanflóðahættu til sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila.
Tómas Jóhannesson
Tómas er ofanflóðasérfræðingur og jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann hefur starfað við rannsóknir á snjóflóðum, við hættumat vegna ofanflóða og að uppbyggingu ofanflóðavarnarvirkja hér á landi síðan 1995. Hann hefur meðal annars komið að rannsóknum á stoðvirkjum á upptakasvæðum snjóflóða við íslenskar aðstæður og að rannsóknum á hönnunarforsendum varnargarða og annarra varnarvirkja á úthlaupssvæðum snjóflóða. Tómas tók ásamt hópi erlendra og innlendra sérfræðinga þátt í mati á þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi í kjölfar mannskaðaflóðanna í Súðavík og á Flateyri árið 1995.
Guðrún Lára Sveinsdóttir
Guðrún starfaði við skipulagsgerð hjá verkfræðistofunni EFLU á árunum 2015-2020. Hóf þá störf hjá Skipulagsstofnun árið 2020 og gegnir starfi sviðsstjóra skipulagssviðs. Lögbundin yfirferð á skipulagsáætlunum sveitarfélaga hjá stofnuninni snýr m.a. að því hvernig tekið hefur verið tillit til náttúruvár við mótun á stefnu um landnotkun í aðalskipulagi og við útfærslu byggðar í deiliskipulagi.
Samstarfsaðilar






