Ofanflóð 2025
Málþing um snjóflóð og samfélög
5. - 6. maí 2025
Staðsetning
Edinborgarhúsið á Ísafirði

Málþing um snjóflóð og samfélög
Málþing um snjóflóð og samfélög verður haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 5.-6. maí 2025.
Snjóflóð og skriðuföll hafa valdið mörgum slysum, stórfelldu efnahagslegu tjóni og margs konar röskun á starfsemi og mannlífi hér á landi allt frá landnámi. Segja má að íslenskt samfélag hafi um langan aldur tekist á við slys af völdum snjóflóða og skriðna með því að taka á sig höggið, lagfæra skemmdir en harka af sér manntjón, og halda svo áfram með tilveruna.
Frá upphafi 20. aldar hafa 226 látist í snjóflóðum og skriðuföllum, þar af 173 í snjóflóðum. Mannskaðasnjóflóðin í Neskaupstað í desember 1974 og svo í Súðavík í janúar 1995 og á Flateyri í október sama ár ollu straumhvörfum í afstöðu Íslendinga til snjóflóðahættu og síðan hefur verið unnið ötullega að uppbyggingu snjóflóðavarna og bættum viðbúnaði við snjóflóðahættu.
Af því tilefni að í ár eru 30 ár liðin frá snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri verður haldið málþing á Ísafirði dagana 5. og 6. maí nk. þar sem sjónum verður m.a. beint að áhrifum snjóflóða og snjóflóðavarna á samfélög á hættusvæðum.
Hótel bókun fer í gegnum skráningarformið.
Skráningu á máþingið lýkur 25. apríl
Hótel fyrir ráðstefnugesti
Hótel Ísafjörður Torg
Hótel Torg er staðsett miðsvæðis á Ísafirði, á Silfurtorgi og býður upp á veitingastað og bar og víðáttumikið útsýni yfir fjörðinn og nærliggjandi fjöll.
Nútímaleg, björt og fallega innréttuð herbergi með útsýni yfir Pollinn eða út yfir Ísafjarðardjúp og Snæfjallaströnd.
Verð:
Einstaklingsherbergi kr. 27.500
Tveggja manna herb. kr. 32.200
Morgunverður innifalinn
Staðsetning: Silfurtorg 2
Hótel Ísafjörður Horn
Hótel Horn er nýjasta hótel Ísafjarðar. Þetta nútímalega hótel býður upp á ókeypis bílastæði, björt fallega innréttuð herbergi með flatskjá sjónvarpi og ókeypis WiFi. Herbergisinnréttingarnar eru innblásnar af náttúrunni í kring og er hótelið að sjálfsögðu reyklaust.
Verð:
Einstaklingsherbergi kr. 26.400
Tveggja manna herb. kr. 32.200
Fjölskylduherbergi kr. 52.000
Morgunverður innifalinn
Staðsetning: Austurvegur 2
Gamla gistihúsið
Gamla gistihúsið er gistiheimili á tveimur hæðum með gistirými fyrir 19 manns í sjö tveggja manna herbergjum og tveimur þriggja manna staðsett í hjarta Ísafjarðarbæjar.
Sameiginlegt bað og snyrtiaðstaða.
Frí þráðlaus nettenging er í öllu húsinu ásamt sameiginlegri sjónvarpsstofu á efri hæðinni.
Gamla gistihúsið er reyklaust.
Herbergin eru rúmgóð og björt og öll með vaski.
Verð:
Einstaklingsherbergi kr. 21.400
Tveggja manna herb. kr. 24.900
Morgunverður innifalinn
ATH. Innritun og morgunmatur er á Hótel Torgi.
Staðsetning: Mánagata 5
Dagskrá
Mánudagur 5. maí
Skoðunarferð
Veggspjöld
Hægt er að fylgjast með málþinginu í beinu streymi
Fyrirlesarar
Bergþóra Kristinsdóttir
Bergþóra er verkfræðingur hjá Vegagerðinni. Hún hefur unnið sem sérfræðingur í samgöngum og vegagerð frá árinu 1999. Hún vann um árabil að verkefnum tengdum skipulagi samgangna, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Eitt af hennar sérsviðum er viðhald vega. Bergþóra er framkvæmdastjóri Þjónustusviðs Vegagerðarinnar. Sviðið hefur umsjón með vetrarþjónustu um land allt, starfrækir vaktstöð Vegagerðarinnar allan sólarhringinn, veitir upplýsingar um færð og veður til almennings og sér um málefni tengd snjóflóðahættu.
Ágrip:
Viðvaranir um snjóflóðaáhættu
Könnun á upplifun íbúa á SMS-skeytakerfi
Vegagerðin er með viðvarana kerfi í smá skilaboðum sem hægt er að vera áskrifandi af tilkynningum þegar snjóflóðahætta er yfirvofandi á vegum. Í dag er hægt að fá tilkynningar fyrir 6 vegi sem snjóflóðavakt Veðurstofunnar vaktar fyrir Vegagerðina og við sendum úr upplýsingar í formi smá skilaboða á þá sem það vilja.
Fræðslusetur Vestfjarða gerði könnun í vetur á meðal þeirra sem nýta sér þjónustuna að fá smáskilaboð. Ánægja er mikil með þjónustuna og traust gott til aðila sem standa að baki þjónustunni sem hefur aukið öryggistilfinningu þeirra sem fara um vegi þar sem þjónustan er veitt.
Góðar ábendingar komu um viðbætur við þjónustuna sem verður reynt að verða við.
Björn Ingimarsson
Björn var sveitarstjóri Þórshafnarhrepps 2001 til 2006, sveitarstjóri Langanesbyggðar 2006 til 2009, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs 2010 til 2020 og sveitarstjóri Múlaþings 2020 til 2025. Björn hefur setið í ýmsum nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélaga og ríkisins og á í dag sæti í stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum auk þess að sinna formennsku í stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótarfélag Íslands.
Ágrip
Í stuttu máli verður farið yfir sögu ofanflóða á Seyðisfirði sem snúast, annars vegar, um aurflóð og, hins vegar, um snjóflóð. Hvernig var brugðist við hér áður fyrr og hvernig brugðist er við í dag. Einnig verður aðeins komið inn á lög og reglur sem unnið er samkvæmt og spurningar sem vaknað hafa varðandi þann þátt.
Daníel Bjarnason
Daníel er leikstjóri og handritshöfundur með yfir fimmtán ára reynslu í kvikmyndagerð. Hann hefur leikstýrt fjölda verðlaunaverkefna, þar á meðal heimildamyndir sem hafa verið sýndar á hátíðum, kvikmyndahúsum og í sjónvarpi. Verk Daníels einkennast af sterkum frásögnum, sjónrænni næmni með virðingu fyrir viðfangsefninu, og leitast hann alltaf eftir að tengja við áhorfandann á persónulegum nótum.
Í nýjustu mynd sinni, Fjallið það öskrar, fjallar Daníel um snjóflóðið á Súðavík árið 1995 með nærgætni og virðingu – þar sem rödd eftirlifenda og ósvaraðar spurningar um atburðinn fá rými. Myndin hlaut áhorfendaverðlaunin á Skjaldborg og Edduna fyrir heimildamynd ársins.
Ágrip:
Í þessu erindi fjalla ég um heimildamyndina Fjallið það öskrar, sem segir sögur frá Súðavík árið 1995 út frá sjónarhorni þeirra sem lifðu atburðinn af. Ég mun ræða hvernig kvikmyndin var unnin – allt frá fyrstu samtölum við viðmælendur, efnistöku og listrænnar útfærslu, til þeirrar siðferðislegu og tilfinningalegu ábyrgðar sem fylgir því að segja svona viðkvæma og sára sögu. Sérstök áhersla verður lögð á það hvernig kvikmyndaleg nálgun og fagurfræði, með leiknum senum og archive efni getur skapað dýpri skilning á samfélagsáföllum og minningu þeirra.
Edda Björk Þórðardóttir
Edda Björk er dósent í faraldsfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Þar sinnir hún kennslu og rannsóknum um heilsufarslegar afleiðingar áfalla. Hún hefur birt fjölda vísindagreina á því sviði. Þá er hún rannsakandi í vísindaverkefnunum Áfallasögu kvenna og Líðan þjóðar á tímum COVID-19. Í doktorsverkefni sínu rannsakaði Edda Björk líðan þolenda snjóflóðanna á Vestfjörðum árið 1995. Edda Björk er einnig klínískur sálfræðingur og er sérhæfð í meðferð við áfallastreituröskun. Hún starfaði áður sem sálfræðingur á geðsviði Landspítalans.
Elías Pétursson
Elías var sveitarstjóri Langanesbyggðar 2014 til 2020 og bæjarstjóri Fjallabyggðar 2020 til 2022. Fyrir þann tíma var Elías framkvæmdastjóri eigin jarðvinnuverktakafyrirtækis, eftirlitsmaður með verklegum framkvæmdum, starfaði við rekstrarráðgjöf og sinnti kennslu á vinnuvélanámskeiðum. Elías hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum bæði tengt starfi sínu sem framkvæmdastjóri sveitarfélaga og störfum í einkageiranum.
Geir Sigurðsson
Geir er verkefnastjóri vetrarþjónustu hjá Vegagerðinni. Hann hefur unnið að málefnum vetrarþjónustunnar lengi, fyrst sem yfirmaður þjónustustöðvar Vegagerðarinnar á Ísafirði frá árinu 2000 til 2013 og síðan verkefnastjóri Vestursvæðis til ársins 2020. Frá 2020 hefur Geir unnið á þjónustusviði Vegagerðarinnar við vetrarþjónustu og þá á landsvísu. Geir er og hefur verið búsettur á Ísafirði allan þennan tíma. Sem yfirmaður þjónustustöðvarinnar vann hann mikið að snjóflóðamálum, þá sérstaklega á þeim tveimur vegaköflum á Íslandi sem mest snjóflóðahætta er á, Djúpvegi um Óshlíð (til 2010) og svo Súðavíkurhlíð. Um 2012 -2014 vann hann að því að koma á sms aðvörunarkerfi vegna snjóflóðahættu til vegfarenda Súðavíkurhlíðar og uppúr því fékk Vegagerðin Veðurstofuna til að gera snjóflóðaspá fyrir þann vegakafla. Síðan þá hafa svo fimm aðrir vegakaflar á landinu með snjóflóðahættu bæst við með snjóflóðaspá og uppplýsingaþjónustu með sms.
Agrip:
Lokanir vega með snjóflóðahættu
Vegagerðin hefur lengi skráð snjóflóð sem falla á þjóðvegi landsins. Í erindinu verður fjallað um fjölda flóða á þeim vegaköflum sem hafa mestu snjóflóðahættuna auk þess sem greint verður frá fjölda lokunardaga síðustu ár.
Þá verður skoðað sá tími í klukkustundum sem þjóðvegirnir tveir með mestu snjóflóðahættuna eru lokaðir og sýnt hlutfall þess tíma miðað við þjónustutíma veganna. Loks verður farið örstutt yfir hverskonar framkvæmdir Vegagerðin hefur farið í til að minnka snjóflóðahættu og tilgreind nokkur atriði vetrarþjónustunnar sem lúta að því að auka öryggi vegfarenda um vegakafla með snjóflóðahættu.
Gísli Steinn Pétursson
Gísli Steinn er verkfræðingur hópstjóri straumfræðihóps hjá Verkís. Hann starfaði áður hjá Verkfræðistofunni Vatnaskil við straumfræðilega ráðgjöf. Gísli hefur unnið að hönnun, ráðgjöf og greiningum vegna ofanflóða síðan 2022.
Ágrip:
Vetrarumferð á Íslandi hefur aukist á undanförnum árum og áratugum. Með aukinni umferð eykst jafnframt hættan á að vegfarendur verði fyrir snjóflóðum, skriðuföllum, aurflóðum og krapaflóðum. Til að draga úr þessari áhættu og auka þjónustustig og rekstraröryggi vega hafa ýmiss konar varnarmannvirki verið reist víða um land. Í erindinu verða sýnd dæmi um slík mannvirki og fjallað stuttlega um helstu atriði sem skipta máli við hönnun og staðsetningu þeirra
Guðrún Lára Sveinsdóttir
Guðrún starfaði við skipulagsgerð hjá verkfræðistofunni EFLU á árunum 2015-2020. Hóf þá störf hjá Skipulagsstofnun árið 2020 og gegnir starfi sviðsstjóra skipulagssviðs. Lögbundin yfirferð á skipulagsáætlunum sveitarfélaga hjá stofnuninni snýr m.a. að því hvernig tekið hefur verið tillit til náttúruvár við mótun á stefnu um landnotkun í aðalskipulagi og við útfærslu byggðar í deiliskipulagi.
Halla Ólafsdóttir
Halla starfaði sem fréttakona á Ísafirði fyrir fréttastofu RÚV á árunum 2015-2019. Síðan þá hefur hún verið sjálfstætt starfandi dagskrárgerðarkona og meðal annars sinnt fjölmörgum verkefnum fyrir dagskrá Rásar 1 og sjónvarps. Sem fréttakona fjallaði Halla um snjóflóðahættu og snjóflóð á Vestfjörðum 2015-2019 og í störfum sínum við dagskrárgerð hefur hún rifjað upp og fjallað áfram um snjóflóð fyrri ára.
Ágrip:
Dregin verða fram nokkur hljóð-, mynd- og textabrot úr umfjöllunum um snjóflóð og snjóflóðahættu á Vestfjörðum síðasta áratuginn.
Halldór Björnsson
Halldór er fagstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands. Hann hefur verið formaður vísindanefndar um loftslagsbreytingar og ritstýrt skýrslum nefndarinnar 2008, 2018 og 2023. Hann hefur unnið að áhættumati fyrir sjávarflóð og mati á áhættustikum fyrir veðurvá.
Halldór Halldórsson
Halldór var bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í 12 ár, frá 1998 til 2010 og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í 12 ár einnig (2006-2018). Þar áður framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann sat í bæjarstjórn Grindavíkur, svo bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar (og líka bæjarstjóri) og í borgarstjórn Reykjavíkurborgar. Samtals 24 ár í sveitarstjórnarmálum. Ennfremur átti hann sæti í Ofanflóðanefnd í 4 ár. Halldór starfar í dag sem forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. á Bíldudal sem er einnnig að undirbúa byggingu versmiðju í Súðavík.
Ágrip:
Varnir, uppbygging og réttlæti
Erindið mun fjalla um stöðuna í samfélaginu eftir hrikalegt áfall og svo uppbygginguna í framhaldinu og baráttuna fyrir réttlæti til handa íbúunum. Það kemur m.a. inn á stöðu Ofanflóðasjóðs og ótrúlegar ákvarðanir er varða fjármagnið sem innheimt var sérstaklega til ofanflóðavarna.
Og ég mun fjalla um áskorun fyrir sveitarstjórnarmenn og þá sem bera ábyrgð á öryggi íbúa að sannfæra marga þeirra um nauðsyn þess að rýma heimili sín á hættusvæði um tíma á meðan snjóflóð ganga yfir eða jafnvel um að byggja upp varnargarða nálægt húsum sínum. Jafnvel stuttu eftir hamfarirnar 1995 þurfti að taka þessa baráttu með tilheyrandi sársauka og erfiðleikum.
Harpa Grímsdóttir
Harpa Grímsdóttir er deildarstjóri ofanflóðadeildar á Veðurstofu Íslands. Hún er líka útibússtjóri Snjóflóðaseturs Veðurstofunnar á Ísafirði þar sem hún hefur starfað frá árinu 2004. Harpa hefur unnið við ýmis verkefni tengd ofanflóðum, svo sem hættumat, rýmingaráætlanir, vöktun og rannsóknir. Einnig hefur hún tekið þátt í ýmsum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum um ofanflóðamál.
Ágrip:
Snjóflóð er sú gerð náttúruhamfara sem kostað hefur flest mannslíf á Íslandi ef frá eru talin óveður á landi og sjó. Skömmu eftir að þéttbýlisvæðing hófst urðu fyrstu stóru snjóflóðaslysin í þorpum og bæjum sem höfðu víða byggst upp á hættusvæðum. Eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri árið 1995 var ákveðið að við slíka áhættu yrði ekki unað og hefur markvisst verið unnið að hættumati, eflingu vöktunar og uppbyggingu varna frá þeim tíma. Mikið hefur áorkast í þessum málum þótt ýmislegt sé eftir og margt megi enn bæta. Í erindinu verður farið yfir snjóflóðamál á Íslandi í gegnum tíðina
Hjalti Jóhannesson
Hjalti er landfræðingur og starfar sem sérfræðingur á Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Hann hefur einkum starfað við rannsóknir á byggðaþróun og aðrar samfélagsfræðirannsóknir síðan árið 2001, bæði tekið þátt í og stjórnað innlendum rannsóknum og sem þátttakandi í fjölþjóðlegum rannsóknum. Hann hefur meðal annars unnið að rannsóknum á samfélagslegum áhrifum innviðauppbyggingar á borð við virkjanir, vegi, raflínur og iðnað, stundum sem hluta af umhverfismati framkvæmda. Á undanförnum árum hefur Hjalti tekið þátt í störfum faghóps 3 í rammaáætlun sem leggur mat á áhrif virkjunar eða friðunar orkusvæða á nærsamfélög.
Ágrip
Í erindinu verður fjallað um hvað er líkt og ólíkt með ofanflóðavörnum og annarri innviðauppbyggingu sem fyrirlesari hefur skoðað í sínu starfi sem rannsakandi en það eru vegaframkvæmdir, orkuinnviðir og iðnaðaruppbygging. Þá mun hann fjalla stuttlega um kostnað sem tengist ofanflóðum. Komið verður inn á hlutverk sveitarfélaga í ofanflóðavörum og hvernig hagræn áhrif vegna varna geta komið fram hjá sveitarfélögum. Einnig verður stuttlega komið inn á hvaða keimlíku þættir einkenna þá staði þar sem snjóflóðavarnir hafa verið reistar. Breytt samfélag og hagrænar áherslur gætu gefið tilefni til að hugað sé í auknum mæli að stöðum utan þéttbýlis. Þá verður í lokin velt því fyrir sér hversu réttmætt mat á hagrænum áhrifum sé, miðað við tilgang ofanflóðavarna lögum samkvæmt.
Hlynur Hafberg Snorrason
Hlynur er yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum.
Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir
Ingibjörg Lilja starfar að endurreisn og fræðslu um hamfarir og enduruppbyggingu hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hún er einnig í doktorsnámi við Háskóla Íslands, þar sem rannsóknir hennar beinast að seiglu samfélaga og viðbúnaði við náttúruvá. Störf hennar í þessum málaflokki spannar á annan tug ára, í rannsóknum, kennslu og í viðbragði. Sérfræðiþekking hennar innan deildarinnar beinist að því að veita langtímastuðning til samfélaga sem hafa orðið fyrir hamförum og að auka vitund almennings um viðbúnað og viðbragð í gegnum fræðslu og rannsóknarverkefni. Þá hefur Ingibjörg í mörg ár verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, þar sem hún hefur veitt sálrænan stuðning til einstaklinga sem hafa orðið fyrir áföllum.
Ágrip:
Ingibjörg Lilja mun fjalla um almannavarnakerfið á Íslandi með áherslu á þá starfsemi sem sinnir beinum stuðningi við samfélög sem takast á við afleiðingar alvarlegra atburða. Hún fjallar um mikilvægi félagslegs stuðnings til lengri tíma í bataferli samfélaga og hvaða hlutverki þjónustumiðstöð almannavarna og samráðshópar um sálfélagslegan stuðning gegna í því samhengi.
Kristín Martha Hákonardóttir
Kristín Martha er ofanflóðasérfræðingur og verkfræðingur í Umhverfis, orku- og loftslagsráðuneytinu. Hún er fulltrúi ofanflóðanefndar og fer með daglega yfirstjórn mála sem tengjast ofanflóðasjóði. Kristín Martha hefur starfað við hönnun ofanflóðavarna í 20 ár hjá Verkís verkfræðistofu og tekið mis virkan þátt í alþjóðlegum rannsóknum á snjóflóðum og sérstaklega virkni varnargarða gegn ofanflóðum, auk þátttöku í ritun hönnunarreglna fyrir varnargarða og keilur á úthlaupssvæðum.
Ágrip:
Á Flateyri risu varnargarðar ofan byggðar árið 1997, eftir mannskaðasnjóflóðið úr Skollahvilft 1995. Þeir voru fyrstu garðarnir sem voru byggðir eftir að ný lög um ofanflóð og ofanflóðavarnir voru sett árið 1997 (Umhverfisráðuneytið, 1997). Eftir tilkomu garðanna hafa tugir snjóflóða lent á þeim án þess að snjóflóð hafi borist yfir þá fyrr en í janúar 2020. Þann 14. janúar 2020 féllu tvö stór snjóflóð á Flateyri úr tveimur giljum ofan við bæinn. Varnargarðarnir urðu til þess að beina 90% flóðmassans frá bænum og út í sjó. Hins vegar barst fremsti hluti flóðanna, s.k. iðufaldur, yfir varnargarðana. Skemmdir urðu á mannvirkjum innan garðanna, stálmastur brotnaði í tvennt, bílar köstuðust til og flóðið braust inn í eitt hús, þar sem stúlku var bjargað úr svefnherbergi. Þykkir flóðstraumar mynduðust meðfram báðum leiðigörðum. Skollahvilftar megin barst hluti flóðstraumsins út í höfnina og kom af stað flóðbylgju sem olli verulegu tjóni og gekk á land. Í kjölfar atburðanna var verkfræðistofunni Verkís falið að yfirfara virkni garðanna, leggja fram tillögur að endurbótum og kanna möguleika á að verja hafnarsvæðið. Tillögur Verkís voru settar fram í frumathugunarskýrslu í mars 2023 og verða þeim gerð skil í erindinu. Þær byggjast á víðtækri samvinnu helstu snjóflóðasérfræðinga í heiminum og felast í að:
- Reisa þrjár raðir af bröttum keilum ofan núverandi leiðigarða til þess að draga úr flóðhraða í bæði iðufaldi og þéttum kjarna áður en flóð lendir á leiðigarði og aðskilja iðufald og þéttan kjarna í flóði. Jafnframt draga keilurnar úr hraða snjóflóðs inn að höfninni.
- Hækka þvergarð milli leiðigarða og endurbyggja hann brattan, til þess að auka virkni hans.
- Móta flóðrásir við báða leiðigarða, til þess að auka virka hæð leiðigarða og tryggja óhindrað rennsli snjóflóða meðfram görðunum og út í sjó.
- Byggja lágan en brattan leiðigarð ofan hafnar til þess að beina flóðum frá höfn.
Magni Hreinn Jónsson
Magni er fagstjóri ofanflóðahættumats á Veðurstofu Íslands. Hann hefur starfað við rannsóknir á snjóflóðum, ofanflóðavöktun og ofanflóðahættumat síðan 2010. Hann heldur meðal annars utan um og sinnir umsögnum og ráðgjöf vegna skipulagsmála og ofanflóðahættu til sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila.
Ágrip
Hættumat hefur verð gert fyrir 25 þéttbýlisstaði á landinu. Auk þess hefur verið gert svokallað staðbundið hættumat vegna skipulagsgerðar og/eða byggingaráforma á yfir 200 stöðum á landinu. Skipulagsyfirvöldum er skylt að taka fullt tillit til ofanflóðahættu við skipulagsgerð og við veitingu byggingar- og framkvæmdaleyfa. Í reglugerð 505/2000 með síðari breytingum er fjallað um hvernig nýta má ofanflóðahættusvæði. Mismunandi reglur gilda fyrir fyrirliggjandi byggð og áður óbyggð svæði. Þannig getur byggð fengið að þróast innan ákveðins ramma en ný byggð má ekki rísa nema áhætta sé ásættanleg. Sveitarstjórnum er skylt að verja eða kaupa upp íbúðarhús á hættulegustu svæðunum í þéttbýli.
Óliver Hilmarsson
Óliver er fagstjóri snjóflóðavöktunnar á Veðurstofu Íslands og hefur starfað við rannsóknir á snjóflóðum og vöktun vegna snjóflóðahættu síðan 2015. Hann sér um ofanflóðagögn Veðurstofunnar og kemur að þróun og viðhaldi kerfa sem vinna með þau gögn.
Ágrip
Snjóflóðaspár fyrir vegi og áreiðanleiki þeirra
Snjóflóðavakt Veðurstofunnar gerir snjóflóðaspár fyrir nokkra vegi þar sem umferð fólks er talsverð til og frá vinnu eða vegna annara erinda. Spárnar eru gerðar fyrir Vegagerðina sem upplýsir vegfarendur um snjóflóðahættu og lokanir með SMS sendingum. Skipulögð skráning snjóflóða og snjóflóðaspáa eru lykilþættir til þess að hægt sé að meta hversu áreinanlegar spárnar eru.
Páll Björgvin Guðmundsson
Páll Björgvin hefur starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) síðan 2019 og var bæjarstjóri í Fjarðabyggð árin 2010-2018 og fjármálastjóri sama sveitarfélags 2004-2008. Páll hefur fjölbreytta reynslu af verkefnum og stjórnarsetu á vettvangi sveitarfélaga og hefur samtals starfað á vettvangi þeirra í 18 ár.
Rögnvaldur Ólafsson
Rögnvaldur er aðstoðaryfirlögregluþjónn og deildarstjóri hjá Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra. Hann hóf feril sinn í lögreglunni á Ísafirði 1992, þá 20 ára gamall, og starfaði þar til ársins 2000 þegar hann fór til Ríkislögreglustjóra. Snjóflóð og verkefni þeim tengd hafa litað störf lögreglunnar á Ísafirði yfir vetrartímann í tenglum við óveður, ófærð, snjóflóð og snjóflóðahættu. Ferill Rögnvaldar í lögreglunni á Ísafirði er því mótaður af persónulegri reynslu af snjóflóðum í gegnum lögreglumannsstarfið. Af stærri atburðum má nefna snjóflóðið á sumarhúsabyggðina í Tungudal, snjóflóð á sorpbrennslustöðina Funa í Engidal, Snjóflóðin í Súðavík og Flateyri. Auk þess lenti hann sjálfur í snjóflóði ásamt vinnufélaga sínum þegar snjóflóð á Kirkjubólshlíð hreif lögreglubíl þeirra með sér og endaði út í sjó. Rögnvaldur hóf störf við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra 2004 og er enn að vinna að verkefnum fyrir deildina.
Sigríður Sif Gylfadóttir
Sigríður Sif starfar sem ofanflóðasérfræðingur hjá Snjóflóðasetri Veðurstofu Íslands á Ísafirði. Hún hefur unnið við hættumat vegna ofanflóða frá árinu 2015 og sinnt líkanreikningum á ofanflóðum og þróun hættumatsaðferða.
Tómas Atli Einarsson
Tómas Atli er snjóathugunarmaður á Tröllaskaga og fulltrúi í bæjarstjórn Fjallabyggðar.
Tómas Jóhannesson
Tómas er ofanflóðasérfræðingur og jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann hefur starfað við rannsóknir á snjóflóðum, við hættumat vegna ofanflóða og að uppbyggingu ofanflóðavarnarvirkja hér á landi síðan 1995. Hann hefur meðal annars komið að rannsóknum á stoðvirkjum á upptakasvæðum snjóflóða við íslenskar aðstæður og að rannsóknum á hönnunarforsendum varnargarða og annarra varnarvirkja á úthlaupssvæðum snjóflóða. Tómas tók ásamt hópi erlendra og innlendra sérfræðinga þátt í mati á þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi í kjölfar mannskaðaflóðanna í Súðavík og á Flateyri árið 1995.
Ágrip:
Mælingar og athuganir á snjóflóðum sem féllu hrinum í janúar 2020 á Flateyri og í mars 2023 í Neskaupstað sýna að varnarvirki komu líklega í veg fyrir að snjóflóðin næðu mun lengra inn í byggðina á báðum þessum stöðum en raunin varð. Flóðin gefa jafnframt til kynna vandamál sem huga þarf að í frekari vinnu við uppbyggingu snjóflóðavarnarvirkja hér á landi og annars staðar. Almennt hefur ekki verið tekið tillit til hættu af völdum yfirflæðis iðufalds við hönnun snjóflóðavarnarvirkja á úthlaupssvæðum. Brattir garðar og keilur eru taldir draga úr hættu af völdum iðufalds en að einhverju marki þarf að bregðast við slíkri hættu með rýmingu húsnæðis þegar snjóflóðahætta kemur upp. Athuganir á snjóflóðunum í Neskaupstað í mars 2023 benda til þess að brattir garðar og keilur hafi umtalsverð áhrif til þess að draga úr skriðlengd iðufalds, en athuganir á flóðunum á Flateyri í janúar 2020 sýna að garðar með jarðvegshalla á hliðinni sem snýr upp í fjallshlíðina hafa lítil áhrif á hraðfara iðufald. Snjóflóðið úr Skollahvilft í janúar 2020 sýnir að aukin hætta vegna öflugra flæðis meðfram leiðigörðum en ella væri er mikilvægur þáttur sem taka þarf tillit til við mat á hættu eftir byggingu slíkra garða sem kallað getur á stækkun hættusvæða í áttina niður með garðinum um jafnvel hundruð metra. Hönnun snjóflóðavarnarvirkja í Neskaupstað, sem byggir á samþættingu stoðvirkja á upptakasvæðum og varnargarða og keilna á úthlaupssvæðum, virðist hafa heppnast vel.
– aukið ágrip
Þóroddur Bjarnason
Þóroddur er prófessor við félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.